Nefndarmenn og starfsfólk
Óbyggðanefnd var sett á fót árið 1998 með þjóðlendulögum, nr. 58/1998, og var skipuð af forsætisráðherra. Ákvæði laganna um nefndina féllu úr gildi 1. janúar 2026, sbr. lög nr. 87/2024, eftir að hún hafði lokið því verkefni sínu í desember 2025 að fjalla um mörk þjóðlendna og eignarlanda á landinu öllu.
Þrátt fyrir að óbyggðanefnd hafi lokið störfum er eftir sem áður hægt að óska eftir endurupptöku máls, séu skilyrði 19. gr. a þjóðlendulaga, nr. 58/1998, uppfyllt, sbr. einnig lög nr. 87/2024. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögunum skal slíkri beiðni beint til forsætisráðherra sem skipar þá þrjá menn í óbyggðanefnd til að fara með beiðnina. Ekki skal þó skipa óbyggðanefnd til að fara með beiðni hafi einkamál verið höfðað vegna viðkomandi svæðis, sbr. 1. mgr. 19. gr., og dómur fallið, enda fer þá um endurupptöku eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála
Við starfslok óbyggðanefndar í árslok 2025 voru nefndarmenn í óbyggðanefnd sem hér segir:
Aðalmenn
Hulda Árnadóttir, héraðsdómari, formaður
Allan V. Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, varaformaður
Þorsteinn Magnússon, héraðsdómari
Varamenn
Valgerður Sólnes, prófessor
Sigmar Aron Ómarsson, framkvæmdastjóri
Víðir Smári Petersen, prófessor
Starfsfólk
Sigmar Aron Ómarsson, framkvæmdastjóri
Erna Erlingsdóttir, skrifstofustjóri
Þrátt fyrir að óbyggðanefnd hafi verið lögð niður vinnur starfsfólk hennar framan af árinu 2026 að frágangi og netföng nefndarinnar og starfsfólks eru því enn virk.
Hlutverk samkvæmt lögum
Óbyggðanefnd var sjálfstæð úrskurðarnefnd sem starfaði á grundvelli III. kafla þjóðlendulaga, nr. 58/1998, árin 1998–2025 og hafði þríþætt hlutverk.
- Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
- Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
- Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.
Nánari upplýsingar um lög sem giltu um nefndina.