Þjóðlendur

Hvað er þjóðlenda?

Þjóðlenda er skilgreind í þjóðlendulögum sem „landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi“. Eignarland er hins vegar „landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma“.

Fram að gildistöku þjóðlendulaga voru til landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að þjóðlendulögum kom fram að gert væri ráð fyrir að þjóðlendur væru landsvæði sem nefnd hefðu verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningar, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé. Tilgangur laganna er að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins.

Nákvæmlega hvaða landsvæði urðu þjóðlendur við gildistöku þjóðlendulaganna skýrist eftir því sem verki óbyggðanefndar miðar áfram.

Framvinda verksins – yfirlitskort yfir stöðu þjóðlendumála (nóvember 2018).

Úrskurðir.

Hvar liggja mörkin á milli þjóðlendna og eignarlanda?

Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda. Niðurstaðan ræðst af almennum sönnunarreglum og þeim heimildum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki. Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.

Upplýsingar um málsmeðferð.

Réttindi annarra innan þjóðlendna

Enda þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar svokölluð takmörkuð eignarréttindi. Þjóðlendulög raska ekki slíkum réttindum. Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um. Afréttur er landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. Hið sama gildir um önnur réttindi sem menn færa sönnur á að þeir eigi.

Engin eignaupptaka

Þjóðlendulög veita ekki heimild til að svipta menn eignum sínum, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum. Lögin lýsa íslenska ríkið einvörðungu eiganda landsvæða utan eignarlanda og þeirra réttinda á þessum svæðum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Vandinn liggur hins vegar í því að skilgreina hvað menn eigi, þ.e. hvar viðurkenndar eignarheimildir séu fyrir hendi og hvar þeim sleppi. Það er einmitt verkefni óbyggðanefndar að greina þarna á milli. Úrlausnir óbyggðanefndar geta síðan komið til endurskoðunar dómstóla.

Stjórn og meðferð þjóðlendna

Um stjórn og meðferð þjóðlendna fer eftir II. kafla þjóðlendulaga.