Óbyggðanefnd er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem starfar á grundvelli III. kafla þjóðlendulaga, nr. 58/1998, og hefur þríþætt hlutverk.

  1. Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
  2. Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
  3. Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

Eftir uppkvaðningu úrskurða 3. maí 2018 hefur óbyggðanefnd lokið umfjöllun um tæplega 84% af flatarmáli landsins alls (svæði 1–9A). Niðurstaðan er að 44% lands sem nefndin hefur lokið meðferð á teljast til þjóðlendna en 56% eru eignarlönd, að teknu tilliti til dóma Hæstaréttar. Af þeim hluta miðhálendisins sem nefndin hefur lokið meðferð á eru tæplega 86% þjóðlendur en rúmlega 14% eignarlönd.

Á eftirfarandi yfirlitskortum má sjá stöðu einstakra landsvæða með tilliti til málsmeðferðar óbyggðanefndar og legu þjóðlendna að teknu tilliti til dómsúrlausna.

  • Yfirlitskort – staða þjóðlendumála á landinu öllu (maí 2018).
  • Yfirlitskort – þjóðlendulínur á svæðum 1-9A (maí 2018, að teknu tilliti til endanlegra dómsúrlausna).

Borist hafa kröfulýsingar á svæði 9B, Snæfellsnesi ásamt fyrrum Kolbeinsstaðahreppi og fyrrum Skógarstrandarhreppi. Kynning á heildarkröfum skv. 12. gr. laga nr. 58/1998 stendur yfir 30. júlí – 30. ágúst 2018 og frestur til athugasemda er til 6. september 2018. Gögnin og nánari upplýsingar má finna á undirsíðunni Til meðferðar.