Óbyggðanefnd er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem starfar á grundvelli III. kafla þjóðlendulaga, nr. 58/1998, og hefur þríþætt hlutverk.
- Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
- Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
- Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.
Svæði til meðferðar
Á undirsíðunni Til meðferðar má sjá á hvaða svæðum málsmeðferð stendur yfir, kröfulýsingar sem borist hafa og upplýsingar um stöðu mála.
Staða þjóðlendumála
Eftir uppkvaðningu úrskurða á svæði 10C 22. desember 2020 hefur óbyggðanefnd lokið umfjöllun um fjórtán af sautján svæðum og þar með er lokið málsmeðferð á 91% af meginlandinu. 40,6% lands sem nefndin hefur lokið meðferð á teljast til þjóðlendna en 59,4% eru eignarlönd, að teknu tilliti til endanlegra niðurstaðna dómstóla. Af þeim hluta miðhálendisins sem nefndin hefur lokið meðferð á eru tæplega 86% þjóðlendur en rúmlega 14% eignarlönd. Heildarfjöldi skjala sem lögð hafa verið fram og rannsökuð við meðferð óbyggðanefndar á svæðum 1–10A og 10C er 27.336, að meðtöldum framlögðum hliðsjónargögnum. Málsmeðferð stendur nú yfir í Ísafjarðarsýslum (svæði 10B) og á svæðum sem tekin hafa verið til skoðunar á grundvelli 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga.
Umfjöllun um tvö svæði, þ.e. Austfirði annars vegar (svæði 11) og eyjar og sker hins vegar (svæði 12), er ekki hafin. Fyrirhugað er að hefja málsmeðferð á Austfjörðum snemma á árinu 2021 og áætlað er að úrskurðir verði kveðnir upp 2022. Fyrirhugað er að málsmeðferð í tengslum við eyjar og sker hefjist árið 2021 og úrskurðir verði kveðnir upp 2023 eða 2024.
Yfirlitskort
Á eftirfarandi yfirlitskortum má sjá stöðu einstakra landsvæða með tilliti til málsmeðferðar óbyggðanefndar og legu þjóðlendna að teknu tilliti til dómsúrlausna.
- Staða þjóðlendumála á landinu öllu – yfirlitskort (desember 2020).
- Þjóðlendulínur á svæðum 1–10A og 10C – yfirlitskort (desember 2020).
Sjá einnig:
- Upplýsingar um málsmeðferð
- Úrskurðir og dómar í þjóðlendumálum