Sjá einnig
Yfirlitskort
Yfirlitskort – svæðaskipting og staða þjóðlendumála á landinu öllu (nóvember 2024).
Svæði 12
Eyjar og sker
Endurskoðaðar kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 bárust óbyggðanefnd 9. október 2024, en málsmeðferðarsvæðið tekur til landsvæða utan strandlengju meginlandsins.
Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta. Kröfum skal lýst skriflega fyrir 31. janúar 2025. Fresturinn var áður veittur til 13. janúar en hefur verið framlengdur. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu svæðanna úrskurðar óbyggðanefnd um framkomnar kröfur. Upplýsingar um frágang kröfulýsinga o.fl. má finna á síðunni Undirbúningur málsaðila en nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu óbyggðanefndar.
Í kröfugerð fjármála- og efnahagsráðherra er svæði 12 skipt í átta hluta, sbr. eftirfarandi kröfulýsingar. Í 5. kafla þeirra kemur fram til hvaða eyja og skerja kröfurnar taka og hvað er undanskilið, sjá einnig kortasjá og enn fremur samantekt um forsendur endurskoðunar á kröfugerðinni.
Í kortasjá um kröfurnar er grá þekja yfir svæðum sem eru undanskilin kröfugerð ríkisins. Blár borði er utan um eyjar og sker sem kröfur ríkisins taka til. Kortasjáin byggist m.a. á bestu fyrirliggjandi upplýsingum um fjörumörk en í kröfugerð ríkisins er gerður fyrirvari um að ekki sé útilokað að stórstraumsfjara nái lengra. Þar sem afmörkun svæða sem eru undanskilin kröfugerð ríkisins miðast samkvæmt texta kröfulýsingar við netlög út frá stórstraumsfjöruborði getur komið til þess að afmörkun verði endurskoðuð ef í ljós kemur að stórstraumsfjara sé í reynd utar en fjörumörkin í kortasjánni.
Kröfulýsingar fjármála- og efnahagsráðherra f.h. íslenska ríkisins á svæði 12 (eyjar og sker):
- Samantekt vegna endurskoðunar kröfulýsinga (pdf), 9. október 2024
- A-hluti, Suðurland, kröfulýsing (pdf), endurskoðuð 9. október 2024
- B-hluti, Austurland og Skaftafellssýslur, kröfulýsing (pdf), endurskoðuð 9. október 2024
- C-hluti, Norðurland eystra, kröfulýsing (pdf), endurskoðuð 9. október 2024
- D-hluti, Norðurland vestra, kröfulýsing (pdf), endurskoðuð 9. október 2024
- E-hluti, Vestfirðir utan Barðastrandarsýslna, kröfulýsing (pdf), endurskoðuð 9. október 2024
- F-hluti, Breiðafjörður, kröfulýsing (pdf), endurskoðuð 9. október 2024
- G-hluti, Vesturland utan Breiðafjarðar, kröfulýsing (pdf), endurskoðuð 9. október 2024
- H-hluti, Suðvesturland, kröfulýsing (pdf), endurskoðuð 9. október 2024
- Kortasjá um kröfur á svæði 12.
Framhald málsmeðferðar
Kröfulýsingarfrestur landeigenda er til 13. janúar 2025. Þegar gagnkröfur hafa borist verða heildarkröfur kynntar skv. 12. gr. þjóðlendulaga. Rannsókn óbyggðanefnd á málunum er hafin en hún felur m.a. í sér umfangsmikla og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu innan framangreinds kröfulýsingarfrests verður viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga.
Eftir að gagnaöflun lýkur og framkomin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd er kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda eru hins vegar úrskurðuð þjóðlendur. Ef óbein eignarréttindi reynast til staðar innan þjóðlendna er jafnframt úrskurðað um þau.
Sjá einnig:
Fyrri stig málsmeðferðar
Óbyggðanefnd tók svæði 12 til meðferðar í apríl 2023, sbr. eftirfarandi bréf um töku svæðisins til meðferðar, og veitti ráðherra kröfulýsingarfrest til 31. ágúst 2023.
Kröfulýsingarfresturinn var framlengdur nokkrum sinnum, síðast til 2. febrúar 2024 og þann dag bárust upphaflegar kröfur ríkisins. Óbyggðanefnd kynnti þá kröfurnar og veitti landeigendum frest til 15. maí til að lýsa kröfum á móti í samræmi við þjóðlendulög.
Óbyggðanefnd barst síðan 16. febrúar 2024 erindi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um tilhögun málsmeðferðar á svæðinu. Bréf ráðuneytisins og svarbréf óbyggðanefndar eru hér fyrir aftan.
- Bréf frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til óbyggðanefndar um tilhögun málsmeðferðar á svæði 12, dags. 16. febrúar 2024 (pdf)
- Svarbréf óbyggðanefndar til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 22. febrúar 2024 (pdf)
Þá bárust 27. mars 2024 leiðréttingar frá lögmanni ríkisins vegna landsvæða sem höfðu verið tilgreind í kröfulýsingu en reyndust utan málsmeðferðarsvæðisins.
Enn fremur barst óbyggðanefnd 5. apríl 2024 bréf frá fjármála- og efnahagsráðherra þar sem því var lýst yfir að ráðherra hefði ákveðið að taka kröfugerð ríkisins á svæði 12 til ítarlegrar endurskoðunar. Í bréfinu var farið fram á að óbyggðanefnd frestaði frekari málsmeðferð á svæðinu og veitti ráðherra frest til að endurskoða kröfur ríkisins. Í kjölfarið yrði landeigendum veittur frekari frestur til að lýsa sínum kröfum.
Þegar erindið barst hafði óbyggðanefnd þegar ákveðið að framlengja kröfulýsingarfrest landeigenda til 2. september. Niðurstaða nefndarinnar var að sá frestur gæfi fjármála- og efnahagsráðherra það svigrúm sem ráðherra óskaði eftir til að endurskoða kröfugerð ríksins og ætlunin var jafnframt að landeigendur hefðu nægan tíma að því loknu til að bregðast við endurskoðuðum kröfum ríkisins og eftir atvikum lýsa gagnkröfum. Bréf ráðuneytisins og svarbréf óbyggðanefndar eru hér fyrir aftan.
- Bréf frá fjármála og efnahagsráðherra til óbyggðanefndar um endurskoðun kröfugerðar á svæði 12 o.fl., dags. 5. apríl 2024 (pdf)
- Svarbréf óbyggðanefndar til fjármála- og efnahagsráðherra, dags. 10. apríl 2024 (pdf)
Í ágúst 2024 var kröfulýsingarfrestur landeigenda síðan framlengdur til 2. desember 2024. Að framkomnum endurskoðuðum kröfum íslenska ríkisins í október 2024 var fresturinn framlengdur til 13. janúar 2025 og hefur nú verið framlengdur að nýju til 31. janúar 2025.
Svæði 11
Austfirðir
Úrskurðir voru kveðnir upp 5. nóvember 2024. Þá er að finna á eftirfarandi síðu:
Svæði 10B
Ísafjarðarsýslur
Úrskurðir voru kveðnir upp 30. ágúst 2023. Þá er að finna á eftirfarandi síðu:
Málsmeðferð skv. 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga
Úrskurðir voru kveðnir upp 17. október 2024. Þá er að finna á eftirfarandi síðu: