Þeir sem telja sig eiga eignarréttarlegra hagsmuna að gæta á svæði sem er til meðferðar hjá óbyggðanefnd og þar sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd ríkisins gert kröfu til sem þjóðlendu, þurfa að huga að eftirtöldu:
Samvinna hagsmunaaðila
Heppilegast er að hagsmunaaðilar á viðkomandi svæði vinni að málum í sameiningu og ráði lögmann sér til aðstoðar. Um getur verið að ræða mikla hagsmuni og flókin lögfræðileg álitaefni. Í þessu sambandi athugast jafnframt að samnýting á sérfræðiaðstoð getur haft þýðingu við úrskurð óbyggðanefndar um málskostnað aðila.
Sjá einnig: Upplýsingar um kostnað.
Efni kröfugerðar
Kröfugerð hvers málsaðila um sig getur lotið að beinum eignarréttindum (þ.e. að um eignarland sé að ræða) eða takmörkuðum/óbeinum eignarréttindum innan hins auglýsta landsvæðis, svo sem réttindum til upprekstrar, beitar, veiði, vatns, námu o.s.frv.
Gagnaöflun
Óbyggðanefnd ber sjálfstæða rannsóknarskyldu og margvíslegra gagna er aflað á vegum nefndarinnar. Kerfisbundin gagnaöflun um ágreiningssvæðin fer fram í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands og afrakstur þeirrar gagnaleitar er jafnan umfangsmikill. Til grundvallar þeirri vinnu er lagt svonefnt frumgagnayfirlit (pdf).
Fyrirsvarsmenn aðila hafa óskoraðan rétt til að fá upplýsingar um tilhögun gagnaöflunarinnar og þeim eru ávallt afhent afrit gagna sem fram koma. Þeir geta að sjálfsögðu jafnframt bent á gögn sem ástæða gæti verið til að kanna.
Í þjóðlendulögum segir að samhliða kröfum sínum skuli aðilar leggja fram þær heimildir og gögn sem þeir byggja rétt sinn á. Rannsóknarskylda óbyggðanefndar dregur ekki úr þessari skyldu málsaðila. Iðulega liggur þó fyrir að ákveðinna gagna verður aflað á vegum óbyggðanefndar til framlagningar í málunum og þá er ekki þörf á því að málsaðilar afli þeirra sjálfir.
Frágangur krafna
Aðilar skulu leggja fram skriflegar kröfur. Í kröfulýsingu þarf að tilgreina um hvaða jörð eða landsvæði er að ræða og hvernig jörðin eða svæðið afmarkast að mati landeigenda eða hvaða eyjar/sker þeir telja vera hluti af jörðinni. Einnig þarf að koma fram hvort gerð er krafa um beinan eignarrétt á landsvæðinu (þ.e. að svæðið sem slíkt teljist beinlínis hluti viðkomandi jarðar) og/eða óbein eignarréttindi (t.d. beitarrétt). Að auki er almennt óskað eftir því að upplýsingar um kröfulínur séu birtar á sameiginlegu yfirlitskorti.
Hægt er að nota eftirfarandi eyðublað til að lýsa kröfum en ekki er skylt að nota eyðublaðið. Því fylgja upplýsingar um atriði sem nauðsynlegt er að gera grein fyrir. Hér á eftir fara einnig ábendingar um kröfugerð og kortagerð en nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu óbyggðanefndar.
- Kröfulýsing, eyðublað (Word-skjal)
Óbyggðanefnd er stjórnvald og um starfsemi hennar gilda því m.a. ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar á meðal um leiðbeiningarskyldu, sbr. 7. gr. laganna. Í því felst m.a. að nefndin leiðbeinir aðilum um úrbætur á kröfugerð ef með þarf.
Kröfugerð:
- Gera þarf grein fyrir afmörkun kröfunnar, einkum því hvernig eigendur telja jörð sína eða landsvæði afmarkast eða hvaða eyjar/sker þeir telja vera hluti af jörðinni. Almennt er á meginlandinu óskað eftir því að gerð sé grein fyrir heildarmerkjum viðkomandi jarðar/svæðis, ekki einungis þeim hluta sem skarast við svæði sem ríkið krefst sem þjóðlendu, enda auðveldar það heildstæða rannsókn merkjalýsinga. Sérlega mikilvægt er þó að ljóst sé hvaða svæði skarast við kröfur íslenska ríkisins því að það er svæðið sem óbyggðanefnd úrskurðar um. Í tilviki eyja og skerja kann að reynast hentugra að annaðhvort tilgreina um hvaða eyjar/sker er að ræða eða tilgreina að gert sé tilkall til allra eyja/skerja innan ákveðinnar afmörkunar.
- Koma þarf fram hvort gerð er krafa um beinan eignarrétt á landsvæðinu (þ.e. að landsvæðið sem slíkt teljist beinlínis hluti viðkomandi jarðar) og/eða óbein eignarréttindi (t.d. rétt til upprekstrar eða veiði). Einnig skal þess getið ef gerð er krafa um málskostnað.
- Hægt er að gera bæði aðalkröfu og varakröfu(r). Algengt er að gerð sé aðalkrafa um beinan eignarrétt en varakrafa um óbein eignarréttindi.
- Kröfulínur þarf almennt að láta teikna inn á sameiginlegt kröfulínukort, sbr. upplýsingar um kortagerð.
Kort:
Eftirfarandi ábendingar um kortagerð miðast að mestu við meginlandið. Í tilviki eyja og skerja kann að reynast hentugra að haga kortagerð öðruvísi en upplýsingar þar að lútandi verða birtar síðar.
Kröfulínur málsaðila þarf að láta teikna inn á sameiginleg kröfulínukort en upplýsingar um hvert fólk skuli snúa sér til þess eru veittar á skrifstofu óbyggðanefndar. Þess er almennt óskað að eftirfarandi sé haft í huga við kortagerðina:
- Samsvörun þarf að vera milli texta kröfulýsingar og kröfulínukorts. Almennt er á meginlandinu óskað eftir því að gerð sé grein fyrir heildarmerkjum viðkomandi jarðar/svæðis, ekki einungis þeim hluta sem skarast við svæði sem ríkið krefst sem þjóðlendu, enda auðveldar það heildstæða rannsókn merkjalýsinga.
- Ef vísað er til örnefna í landamerkjalýsingum er óskað eftir að þau séu merkt inn á kortið. Einfaldast er að auðkenna örnefni með númerum á kortinu og gera svo grein fyrir því í kröfulýsingu eða hornpunktaskrá hvaða örnefni eða kennileiti hvert númer stendur fyrir.
- Veita þarf skýrar upplýsingar um hvernig kröfulína skuli teiknuð, t.d. staðsetningu viðmiðunarpunkta á borð við örnefni og hvernig línan skuli dregin milli þeirra. Þar getur m.a. gagnast að merkja punkta eða línur inn á tiltæk kort ef t.d. rafrænar upplýsingar eru ekki fyrir hendi. Ef landamerkin eru tiltæk á rafrænu formi (t.d. shp-skrá) flýtir það fyrir kortagerðinni en ekki er þó ætlast til þess að rafræn gögn séu unnin sérstaklega í undirbúningsskyni.