Undirbúningur málsaðila

Þeir sem telja sig eiga eignarréttarlegra hagsmuna að gæta á svæði sem óbyggðanefnd hefur tekið til meðferðar og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins hefur gert kröfu til sem þjóðlendu, þurfa að huga að eftirtöldu:

Samvinna hagsmunaaðila
Heppilegast er að hagsmunaaðilar á viðkomandi svæði vinni að málum í sameiningu og ráði sér lögmann til aðstoðar. Um getur verið að ræða mikla hagsmuni, flókin lögfræðileg álitaefni og vandasama gagnaöflun. Í þessu sambandi athugist jafnframt að samnýting á sérfræðiaðstoð getur haft þýðingu við úrskurð óbyggðanefndar um málskostnað aðila.
Upplýsingar um kostnað.

Efni kröfugerðar
Kröfugerð hvers málsaðila um sig getur lotið að beinum eignarréttindum (þ.e. að um eignarland sé að ræða) eða takmörkuðum/óbeinum eignarréttindum innan hins auglýsta landsvæðis, svo sem réttindum til upprekstrar, beitar, veiði, vatns, námu o.s.frv.

Gagnaöflun
Samhliða kröfum sínum skulu aðilar leggja fram þær heimildir og gögn sem þeir byggja rétt sinn á. Hér kemur mjög margt til greina en í dæmaskyni má nefna gögn eins og dóma, þinglesin skjöl af ýmsu tagi, t.d. kaupsamninga, afsöl, landamerkjabréf og landskiptagjörðir, prentaðar (og óprentaðar) heimildir, t.d. jarðaskrár, sókna-, héraðs- og byggðalýsingar, ennfremur heimildir um landnám, afréttaskrár, máldaga, lögfestur og vísitasíur. Það ber að ítreka að hér er alls ekki um tæmandi talningu að ræða. Þá getur komið til þess að vitni verði leidd fyrir nefndina.
Að auki ber óbyggðanefnd sjálfstæða rannsóknarskyldu og ýmissa gagna er aflað á vegum nefndarinnar. Fyrirsvarsmenn aðila hafa óskoraðan rétt til að fá upplýsingar um tilhögun þeirrar vinnu og afrit gagna. Þeir geta að sjálfsögðu jafnframt bent á gögn sem ástæða gæti verið til að kanna. Rannsóknarskylda óbyggðanefndar dregur hins vegar ekki úr skyldu málsaðila til að afla og leggja fram þær heimildir og gögn sem þeir byggja rétt sinn á.

Frágangur krafna
Aðilar skulu leggja fram skriflegar kröfur. Fylgja þarf greinargerð og þær heimildir og gögn sem aðilar byggja rétt sinn á, ásamt uppdrætti.

Upplýsingar um málsmeðferð.