Kostnaður

Ríkissjóður greiðir kostnað

Kostnaður vegna starfa óbyggðanefndar greiðist úr ríkissjóði. Þetta gildir bæði um rekstrarkostnað nefndarinnar og nauðsynlegan kostnað einstaklinga og lögaðila vegna hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd, að teknu tilliti til neðangreindra skilyrða.

Skilyrði fyrir greiðslu málskostnaðar

Óbyggðanefnd úrskurðar um kröfur aðila vegna kostnaðar. Við þann úrskurð geta eftirfarandi atriði skipt máli, sbr. 17. gr. þjóðlendulaga.

  • Var um nauðsynlegan kostnað að ræða?
  • Var aðstoð lögmanna og annarra sérfræðinga samnýtt af aðilum með svipaða og samrýmanlega hagsmuni?
  • Hvert er sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í málinu?

Aðilar geta þurft að greiða málskostnað

Óbyggðanefnd er heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti, telji hún málatilbúnað hans gefa tilefni til slíks, svo sem ef kröfur eru hafðar uppi að tilefnislausu.

Málskostnaður fyrir dómstólum

Kjósi aðili að skjóta máli sínum til dómstóla að fengnum úrskurði óbyggðanefndar og innan tilskilins frests gilda hins vegar ákvæði laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, um ákvörðun málskostnaðar.