Málsmeðferð skv. 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga
Forsætisráðherra setti 10. desember 2021 sérstaka óbyggðanefnd til að annast málsmeðferð skv. 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga. Ákvæðið heimilar óbyggðanefnd að „taka til meðferðar svæði sem áður hafa sætt meðferð hennar ef hún hefur í úrskurði gert athugasemd við kröfugerð ráðherra“.
Óbyggðanefnd tók 17 svæði til meðferðar á þeim grundvelli í júní 2020 og í janúar 2021 bárust kröfur íslenska ríkisins vegna þeirra. Í október 2021 ákvað nefndin að reglulegir nefndarmenn skyldu víkja sæti við málsmeðferðina vegna vanhæfis. Því var í desember 2021 sett sérstök óbyggðanefnd til að annast málsmeðferðina.
Sérstök óbyggðanefnd hefur ákveðið að hverfa frá þeirri málsmeðferð sem óbyggðanefnd hafði áður stofnað til og hyggst skoða að nýju hvort taka beri beri landsvæðin til meðferðar en ljóst þykir að einungis komi til álita umrædd 17 svæði.
Til að stuðla að því að öllum sem kynna að hafa athugasemdir við mögulega töku svæðanna til meðferðar gæfist kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri áður en framhaldið verður ákveðið var auglýst í janúar 2022 að þetta væri til skoðunar og óskað eftir að athugasemdir yrðu sendar skrifstofu óbyggðanefndar í síðasta lagi 18. febrúar 2022. Níu erindi bárust ýmist innan frestsins eða skömmu síðar. Í framhaldinu sendi nefndin fjármála- og efnahagsráðherra erindi um málið til upplýsingar og óskaði eftir afstöðu til tiltekinna atriða.
Á þessu stigi hefur einungis verið kallað eftir sjónarmiðum um lagalegan grundvöll málsmeðferðarinnar en ekki kröfulýsingum eða öðru sem varðar möguleg eignarréttindi. Við ákvörðun um framhaldið leggur nefndin einnig mat á þýðingu sjónarmiða sem þegar hafa komið fram af hálfu mögulegra rétthafa og varða grundvöll málsmeðferðarinnar.
Í eftirfarandi minnisblaði eru upplýsingar um svæðin og þá hluta af úrskurðum óbyggðanefndar sem sérstök óbyggðanefnd hefur til skoðunar hvort teljist athugasemdir í skilningi 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga.
Í sérstakri óbyggðanefnd eru:
Kristín Benediktsdóttir, dósent, formaður.
Þorgeir Örlygsson, fv. forseti Hæstaréttar, varaformaður.
Víðir Smári Petersen, dósent.