Málsmeðferð skv. 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga
Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra um þjóðlendur á tilteknum svæðum á grundvelli 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga bárust óbyggðanefnd 14. nóvember 2022. Ákvæðið heimilar óbyggðanefnd að „taka til meðferðar svæði sem áður hafa sætt meðferð hennar ef hún hefur í úrskurði gert athugasemd við kröfugerð ráðherra“. Kröfulýsingu íslenska ríkisins ásamt kröfulínukortum má sjá hér aftar, sem og upplýsingar um forsögu málsins, en sérstök óbyggðanefnd var í desember 2021 sett til að annast málsmeðferðina.
Í framhaldinu kallaði óbyggðanefnd eftir kröfum þeirra sem kynnu að eiga öndverðra hagsmuna að gæta. Kröfulýsingarfrestur var til 28. mars 2023 eftir að hafa verið framlengdur einu sinni. Innan frestsins bárust 28 kröfulýsingar.
Framundan er kynning á heildarkröfum, sbr. 12. gr. þjóðlendulaga, og rannsókn óbyggðanefndar á málunum. Að lokinni rannsókn úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu verður viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga.
Í eldri málum hjá óbyggðanefnd var á sínum tíma aflað ýmissa gagna um svæðin sem nú eru til meðferðar en þau málsgögn eru öll fáanleg hjá skrifstofu óbyggðanefndar.
Kröfulýsing ríkisins og fylgigögn hennar:
- Kröfulýsing fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins (pdf) um þjóðlendur skv. 1.málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga, dags. 14. nóvember 2022.
- Yfirlitskort um kröfur ríkisins (pdf)
- Kröfulínukort (núverandi kröfulínur eru fjólubláar en aðrar línur eru af kortum sem fylgdu úrskurðum í eldri málum):
- Kort 1: Skriðuklaustur og Valþjófsstaður (pdf)
- Kort 2: Grímólfsártunga og Kverkártunga (pdf)
- Kort 3: a) Svæði við Torfufell, Hólsgerði og Úlfá; b) Vaskárdalur, Almenningur og Bakkasel (pdf)
- Kort 4: Svæði við norðurmörk Eyvindarstaðaheiðar og Hraunanna (pdf)
- Kort 5: Skrapatunguafrétt (pdf)
- Kort 6: Auðkúluheiði og Kornsártungur (pdf)
- Kort 7: Hítardalur og Svarfhóll (pdf)
- Kort 8: Svæði austan og sunnan Drangajökuls (pdf)
Sjá einnig:
Forsaga málsins
Upphaflega tók óbyggðanefnd áðurnefnd svæði til meðferðar í júní 2020 og í janúar 2021 bárust kröfur íslenska ríkisins vegna þeirra. Í október 2021 ákvað nefndin að reglulegir nefndarmenn skyldu víkja sæti við málsmeðferðina vegna vanhæfis. Því var í desember 2021 sett sérstök óbyggðanefnd til að annast málsmeðferðina. Sú nefnd ákvað að hverfa frá þeirri málsmeðferð sem óbyggðanefnd hafði áður stofnað til og skoða að nýju hvort taka beri bæri landsvæðin til meðferðar. Til að stuðla að því að öllum sem kynna að hafa athugasemdir við mögulega töku svæðanna til meðferðar gæfist kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri áður en framhaldið yrði ákveðið var auglýst í janúar 2022 að þetta væri til skoðunar og óskað eftir að athugasemdir yrðu sendar skrifstofu óbyggðanefndar í síðasta lagi 18. febrúar 2022. Níu erindi bárust ýmist innan frestsins eða skömmu síðar. Í framhaldinu sendi nefndin fjármála- og efnahagsráðherra tvívegis erindi um málið til upplýsingar og óskaði eftir afstöðu til tiltekinna atriða. Að því loknu var öðrum sem höfðu sent nefndinni erindi gefinn kostur á að tjá sig frekar um málið. Á þessu stigi var einungis kallað eftir sjónarmiðum um lagalegan grundvöll málsmeðferðarinnar en ekki kröfulýsingum eða öðru sem varðaði möguleg eignarréttindi. Sérstök óbyggðanefnd ákvað svo í ágúst 2022 að taka svæðin til meðferðar og veitti fjármála- og efnahagsráðherra frest til 14. nóvember 2022 til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum um þjóðlendur á svæðunum, væri um slíkar kröfur að ræða. Þann dag bárust svo kröfur ríkisins, sbr. framangreint.
Í eftirfarandi bréfi um töku svæðanna til meðferðar er gerð grein fyrir ákvörðuninni og forsögu málsins, auk þess sem minnisblað fylgir til frekari skýringar um legu svæðanna.
- Bréf um töku svæða til meðferðar skv. 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga (pdf) – (11. ágúst 2022)
- Minnisblað um svæði tekin til meðferðar skv. 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga (pdf) – (10. ágúst 2022)
Nefndarmenn í sérstakri óbyggðanefnd:
Kristín Benediktsdóttir, dósent, formaður.
Þorgeir Örlygsson, fv. forseti Hæstaréttar, varaformaður.
Víðir Smári Petersen, dósent.