Málsmeðferð

Örstutt um málsmeðferð

Málsmeðferð hefst með því að óbyggðanefnd tilkynnir fjármála- og efnahagsráðherra að nefndin hafi ákveðið að taka tiltekið landsvæði til meðferðar og veitir honum frest til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum þess um þjóðlendur á svæðinu. Þegar kröfur ríkisins liggja fyrir gefur óbyggðanefnd út tilkynningu og skorar á þá er telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á því svæði sem ríkið gerir kröfu til, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan tiltekins frests. Að lokinni opinberri kynningu á öllum þeim kröfum sem borist hafa á viðkomandi svæði er tekin ákvörðun um skiptingu svæðisins í mál og boðað til fyrstu fyrirtöku. Málin eru síðan tekið fyrir eins oft og þörf er á, frekari gögn lögð fram og leitast við að skýra það að öðru leyti.

Mikilvægur liður í málsmeðferðinni er kerfisbundin öflun gagna um ágreiningssvæðin, sem sérfræðingar á Þjóðskjalasafni Íslands annast að verulegu leyti.

Meðal annarra mikilvægra liða í málsmeðferðinni eru vettvangsferð og svonefnd aðal-meðferð. Það felur í sér að farið er á vettvang undir leiðsögn heimamanna, aðilar og vitni gefa skýrslur og að því búnu eru málin flutt munnlega. Almennt er því hagað þannig að aðalmeðferð fari fram nærri þeim svæðum sem deilt er um, bæði til þess að óbyggðanefnd geti notið aðstoðar heimamanna við að upplýsa málin og til þess að heimamenn eigi þess kost að fylgjast með því sem fram fer. Eftir að gagnaöflun lýkur og fram komin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar eru úrskurðir kveðnir upp. Vegna umfangs mála líða gjarnan 1‒2 ár frá því málsmeðferð hefst og þar til úrskurðir eru kveðnir upp.

Hér fer á eftir nánari lýsing á einstökum þáttum málsmeðferðar.

Svæði tekið til meðferðar

Óbyggðanefnd skipti landinu upphaflega í 11 svæði og tók eitt þeirra fyrir hverju sinni. Síðar var sumum svæðunum skipt í smærri einingar, meðal annars í því skyni að aðlaga umfang mála að knöppum fjárheimildum nefndarinnar. Svæðin eru því alls 16 nú og miðast afmörkun þeirra að jafnaði við sýslumörk. Á yfirlitskorti má sjá stöðu málsmeðferðar nefndarinnar eftir svæðum. Að auki er ólokið umfjöllun nefndarinnar um eyjar og sker umhverfis landið.

Ríkinu veittur frestur til að setja fram kröfur

Fjármála- og efnahagsráðherra fer með fyrirsvar fyrir hönd ríkisins í málum fyrir óbyggðanefnd. Ráðherra er tilkynnt um ákvörðun óbyggðanefndar og veittur þriggja til sex mánaða frestur til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur á viðkomandi svæði. Samhliða kröfum skal leggja fram þær heimildir og gögn sem ríkið byggir rétt sinn á. Lögmenn annast þá hagsmunagæslu fyrir hönd ráðherra.

Kallað eftir kröfum annarra

Þegar kröfulýsing ríkisins liggur fyrir gefur óbyggðanefnd út tilkynningu og lætur birta í Lögbirtingablaðinu og dagblaði. Þar er gerð grein fyrir kröfugerð ríkisins og skorað á þá sem telja til eignarréttinda á því svæði sem ríkið gerir kröfur til, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan tiltekins tíma (3‒6 mánaða). Samhliða kröfum sínum skulu aðilar leggja fram þær heimildir og gögn sem þeir byggja rétt sinn á. Tilkynningunni er þinglýst á þær eignir á svæðinu sem skráðar eru í þinglýsingabók hjá viðkomandi sýslumannsembætti.

Kröfulýsing fjármála- og efnahagsráðherra er send sýslumönnum og sveitarfélögum á svæðinu, ásamt fylgigögnum, auk þess sem kröfulýsingar eru birtar á vefsíðu óbyggðanefndar.

Um undirbúning málsaðila.

Kynning á lýstum kröfum

Að loknum fresti gefur óbyggðanefnd út yfirlit yfir lýstar kröfur ásamt uppdrætti (kröfulínukorti). Þessi gögn liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sýslumanns/sýslumanna í að minnsta kosti einn mánuð. Athugasemdir skulu hafa borist nefndinni innan sjö daga frá þeim degi er kynningu lýkur.

Rannsóknarskylda óbyggðanefndar

Málsmeðferð óbyggðanefndar einskorðast ekki við þau gögn sem aðilar leggja fram heldur ber nefndin einnig sjálfstæða rannsóknarskyldu. Í henni felst skylda til að hafa frumkvæði að því að afla heimilda og gagna um eignar- og afnotaréttindi yfir því landsvæði sem til meðferðar er og framkvæma rannsóknir og athuganir um staðreyndir og lagaatriði sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu í einstökum málum. Markmiðið er að tryggja sem best að rétt niðurstaða fáist um einstök álitaefni. Til að fullnægja þessari skyldu sem best nýtur óbyggðanefnd aðstoðar Þjóðskjalasafns Íslands og fleiri aðila varðandi gagnaöflun og skjalarannsóknir. Að jafnaði eru unnin 2‒3 ársverk árlega á Þjóðskjalasafninu við öflun heimilda um svæði sem deilt er um fyrir óbyggðanefnd og ritun sögulegra greinargerða um þau.

Í þjóðlendulögum segir að komi það fram við meðferð máls að aðili, sem kann að telja til eignarréttinda, hafi ekki lýst kröfum sínum skuli óbyggðanefnd hafa frumkvæði að því að kanna hvort hann falli frá tilkalli, en ella gefa honum kost á að gerast aðili máls. Á þessum grundvelli hefur nefndin stundum vakið athygli hugsanlegra rétthafa á kröfugerðum íslenska ríkisins, hafi þeir ekki sjálfir haft frumkvæði að því að lýsa kröfum sínum innan tilskilins frests.

Nánar um rannsóknarskyldu og gagnaöflun óbyggðanefndar (pdf).

Sáttaumleitan

Óbyggðanefnd leitar sátta með aðilum nema telja verði að sáttatilraun verði árangurslaus.

Málflutningur

Fyrir óbyggðanefnd fer fram málflutningur. Hann er að meginreglu skriflegur samkvæmt þjóðlendulögum. Óbyggðanefnd getur þó samkvæmt lögunum ákveðið að einnig fari fram munnlegur málflutningur og sönnunarfærsla og er það undantekningalaust gert í þeim málum sem nefndin hefur til meðferðar.

Úrskurður

Máli fyrir óbyggðanefnd lýkur með úrskurði. Sá úrskurður er endanleg afgreiðsla málsins innan stjórnsýslunnar og verður því ekki kærður til ráðherra sem æðra stjórnvalds. Sá sem vill ekki una úrskurði óbyggðanefndar getur hins vegar höfðað einkamál innan sex mánaða frá útgáfudegi þess Lögbirtingablaðs sem útdráttur úr úrskurði er birtur í.

Úrskurðir óbyggðanefndar eru birtir á eftirfarandi hátt:

  • Með uppkvaðningu í heyranda hljóði og afhendingu úrskurðanna til málsaðila eða fulltrúa þeirra.
  • Í Lögbirtingablaði (útdráttur ásamt uppdrætti).
  • Í skýrslu óbyggðanefndar.
  • Á vefsíðu óbyggðanefndar.