Óbyggðanefnd er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem starfar á grundvelli III. kafla þjóðlendulaga, nr. 58/1998, og hefur þríþætt hlutverk.
- Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
- Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
- Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.
Svæði til meðferðar
Óbyggðanefnd hefur nú til meðferðar eyjar og sker (svæði 12). Upplýsingar um málsmeðferðina og stöðu mála eru á eftirfarandi síðu:
Kynning á heildarkröfum skv. 12. gr. þjóðlendulaga stendur nú yfir en samkvæmt lögunum skulu heildarkröfur kynntar þannig að að yfirlit um þær sé látið „liggja frammi á skrifstofu sýslumanns eða sýslumanna í því eða þeim umdæmum sem svæðið á undir“ í a.m.k. einn mánuð. Yfirlitið fer einnig hér á eftir. Kynning þessi á heildarkröfum stendur yfir 20. október – 20. nóvember 2025. Athugasemdafrestur er til 27. nóvember 2025.
Vakin er athygli á því að þjóðlendukröfur fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. íslenska ríkisins taka m.a. til eyja og skerja þar sem ekki hafa borist gagnkröfur. Kröfur ríkisins eru auðkenndar með bláum borða í kortasjá um kröfur málsaðila. Þrátt fyrir að formlegur frestur til að lýsa kröfum hafi runnið út í febrúar 2025 tekur nefndin enn við kröfum þeirra sem telja til réttinda á svæðum sem ríkið gerir kröfu til, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga, en samkvæmt henni ber óbyggðanefnd að gefa þeim, sem kunna að telja til eignarréttinda á þeim svæðum sem þjóðlendukröfur ríkisins taka til, kost á að gerast aðilar máls og lýsa kröfum fyrir nefndinni.
- Kynning á heildarkröfum, 20. október – 20. nóvember 2025 (pdf).
- Kortasjá um kröfur á svæði 12.
Nýjustu úrskurðir
Úrskurðir í málum á Austfjörðum (svæði 11) voru kveðnir upp 5. nóvember 2024. Þá voru úrskurðir í málum sem sættu málsmeðferð skv. 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga kveðnir upp fimmtudaginn 17. október 2024. Úrskurðina er að finna á eftirfarandi síðu:
Staða þjóðlendumála
Eftir uppkvaðningu úrskurða 5. nóvember 2024 í málum á Austfjörðum (svæði 11) hefur óbyggðanefnd lokið umfjöllun um sextán af sautján svæðum og málsmeðferð á meginlandinu er lokið. Eftir stendur að fjalla um eyjar og sker umhverfis landið (svæði 12). 36,6% lands sem nefndin hefur lokið meðferð á teljast til þjóðlendna en 63,4% eru eignarlönd, að teknu tilliti til endanlegra niðurstaðna dómstóla. Heildarfjöldi skjala sem lögð hafa verið fram og rannsökuð við meðferð óbyggðanefndar á svæðum 1–11 er 36.607, að meðtöldum framlögðum hliðsjónargögnum.
Málsmeðferð stendur nú yfir vegna eyja og skerja (svæði 12).
Yfirlitskort
Á eftirfarandi yfirlitskortum má sjá stöðu einstakra landsvæða með tilliti til málsmeðferðar óbyggðanefndar og legu þjóðlendna að teknu tilliti til dómsúrlausna.
- Staða þjóðlendumála á landinu öllu – yfirlitskort (5. nóvember 2024).
- Þjóðlendulínur á svæðum 1–11 – yfirlitskort (17. september 2025).
Sjá einnig:
- Upplýsingar um málsmeðferð
- Úrskurðir og dómar í þjóðlendumálum