Allan Vagn Magnússon, fyrrverandi dómstjóri. Varaformaður.

Fæddur á Húsavík 1945. Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1965 og cand. jur. frá Háskóla Íslands 1971. Starfaði að loknu kandidatsprófi sem fulltrúi Benedikts Sveinssonar, hrl. í Reykjavík til 1. febrúar 1974. Héraðsdómslögmaður 1973. Fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum frá 14. janúar 1974 til 1. nóvember 1976 en frá þeim tíma fulltrúi hjá sýslumanninum í Árnessýslu. Skipaður héraðsdómari við embætti sýslumannsins í Árnessýslu og bæjarfógetans á Selfossi 3. júní 1985. Skipaður borgardómari í Reykjavík frá 10. nóvember 1987. Skipaður Héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá 1. júlí 1992. Settur bæjarfógeti á Seyðisfirði og sýslumaður í Norður-Múlasýslu frá 1. október 1980 til 1. mars 1981. Gegndi sýslumannsstörfum í Vestur-Skaftafellssýslu 1982-1987 í leyfum hins reglulega sýslumanns. Hefur gegnt setudómarastörfum í ýmsum málum í héraði og setið í nokkrum gerðardómum. Settur hæstaréttardómari í ýmsum málum þar á meðal um endurupptöku svonefndra Guðmundar- og Geirfinnsmála á árinu 1997. Annaðist kennslu í stjórnskipunarrétti við Lagadeild Háskóla Íslands á vormisseri 1995 í leyfi Gunnars G. Schram prófessors og hefur annast stundakennslu við deildina, aðallega í réttarfari. Stundakennari í Læknadeild Háskóla Íslands frá 1992. Stundakennari í Fjölbrautaskóla Suðurlands 1982-87. Átti sæti í Félagsdómi 1987-89 tilnefndur af BHM. Kjörinn varamaður í Landskjörstjórn 1987-88. Skipaður í kirkjueignanefnd frá 23. desember 1982. Skipaður 1984 í nefnd til að endurskoða starfsemi vátryggingarfélaga og þau lög sem gilda um starfsemi þeirra. Formaður rekstrarstjórnar Sjúkrahúss Suðurlands og Heilsugæslustöðvar Selfoss 1984-89. Formaður nefndar til að gera drög að frumvarpi til laga um eignarrétt að almenningum og afréttum frá 15. janúar 1988. Vinnu þeirrar nefndar lauk með frumvarpi til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Formaður Siðanefndar Læknafélags Íslands frá 5. nóvember 1990. Skipaður af dómsmálaráðherra 1997 til að vera formaður nefndar er hafði það hlutverk að huga að meðferð mála er varða heimilisofbeldi í dómskerfinu og leggja fyrir dómsmálaráðherra tillögur um nauðsynlegar úrbætur í því efni, þ. á m. tillögur um breytingar á refsi- og réttarfarslöggjöf. Varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta frá 21. júní 1991. Skipaður af forsætisráðherra í óbyggðanefnd frá 2. september 1998. Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands 1969-1970, framkvæmdastjóri Æskulýðssambands Íslands 1970-73, formaður félags héraðsdómara 1976-81, í stjórn launamálaráðs BHM 1979-1981, í stjórn Stéttarfélags Lögfræðinga 1977-83 og formaður þess 1980-83. Varaformaður Dómarafélags Reykjavíkur 1987-89. Í stjórn Dómarafélags Íslands 1993-1997 og formaður þess 1994-97.