Ása Ólafsdóttir, prófessor. Formaður.

Ása ÓlafsdÁsa Ólafsdóttir er fædd 1970. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1990 og embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1996. Árið 2000 hlaut hún meistaragráðu frá háskólanum í Cambridge. Héraðsdómslögmaður 1998 og hæstaréttarlögmaður 2005-2012. Að loknu embættisprófi starfaði Ása sem löglærður fulltrúi á lögfræðiskrifstofu Jóhanns H. Níelssonar hrl. og rak síðar lögfræðistofu ásamt Jóhanni árin 1998-2003, þegar hún varð einn eigenda JP lögmanna ehf. og starfaði hún þar allt fram til ársins 2008. Hún varð lektor við lagadeild Háskóla Íslands árið 2006, dósent árið 2012 og prófessor árið 2018. Hún var aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, síðar dómsmála- og mannréttindaráðherra, frá febrúar 2009 til september 2010. Ása var skipuð í óbyggðanefnd árið 2012 og hefur verið formaður hennar frá árinu 2016.

Ása hefur setið í fjölda úrskurðarnefnda og tekið sæti í öðrum nefndum og stjórnum, svo sem í kærunefnd jafnréttismála, áfrýjunarnefnd neytendamála, úrskurðarnefnd hollustuhátta- og mengunarvarnarmála, kjararáði, stjórn styrktarsjóða Háskóla Íslands, eftirlitsnefnd fasteignasala, nefnd um dómarastörf, úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, gjafsóknarnefnd og réttarfarsnefnd. Ása er jafnframt í ritstjórn og er ritstjóri Lagasafns frá árinu 2011 og er varadómari við EFTA-dómstólinn. Ása hefur komið að gerð fjölda lagafrumvarpa og haldið fjölmörg erindi og fyrirlestra á sviði lögfræði, auk þess sem hún er höfundur fræðigreina á sviði fjármunaréttar.