Aðalheiður Jóhannsdóttir er fædd í Reykjavík 1957. Hún lauk doktorsprófi í umhverfisrétti (doctor juris, LL. D.) frá lagadeild Uppsalaháskóla 2009 og embættisprófi í lögfræði (candidata juris) frá lagadeild Háskóla Íslands 1991. Hún hefur að auki setið fjölmörg alþjóðleg námskeið í lögfræði frá 1993 og einnig stundað nám í sagnfræði, stjórnmálafræði, listasögu og ítölsku.
Aðalheiður var deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu á árunum 1991–1994, framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs 1994–1997 og forstjóri Náttúruverndar ríkisins 1997–1998. Hún var stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands á árunum 1996–1999 og 2002–2003, aðjúnkt við deildina á árunum 2003–2004, lektor 2004–2005, dósent 2005–2009 og hefur verið prófessor síðan í maí 2009.
Aðalheiður hefur gegnt fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum og hefur átt sæti í mörgum nefndum, stjórnum og ráðum, bæði innan og utan Háskóla Íslands, m.a. er hún aðalmaður í úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hún hefur undanfarin ár verið deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands og var áður varadeildarforseti.
Aðalheiður er höfundur þriggja bóka og á fimmta tug tímaritsgreina og bókarkafla í lögfræði sem birst hafa hér á landi og erlendis.